Dalabyggð hunsar tilmæli ríkisstjórnarinnar og skapar fordæmi í skipulagsmálum sem erfitt verður að vinda ofanaf
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „setja þarf lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“. Ríkið skipaði nefnd s.l. haust til þess að vinna þessar leiðbeiningar og lög en þeirri vinnu er ekki lokið.
Dalabyggð er að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórn og ryðjast í gegn með fordæmisgefandi skipulagsbreytingar áður en lagabreytingar og leiðbeiningar til sveitarfélaga eru tilbúnar. Af hverju liggur Dalabyggð svona mikið á? Af hverju skipti oddviti um skoðun varðandi þetta atriði frá því fyrir kosningar 2018?
Ef verkefnin vestur í Dölum verða að veruleika þá er ekkert sem stoppar hvaða einkaaðila sem er í því að kaupa jarðir, fá skipulagi breytt og byggja vindorkuvirkjanir eins og enginn sé morgundagurinn. Ísland verður orðið undirlagt af þessum virkjunum eftir nokkur ár – allt meira og minna í byggð. Og þrýstingur á að selja rafmagn úr landi stóreykst.