Ótímabært að breyta aðalskipulagi fyrr en umhverfismat hefur farið fram

1606

Smári Hjaltason setti sig í samband við Bjarna Jónsson rafmagnsverkfræðing og spurði um hans álit á fyrirhuguðum framkvæmdum í landi Hróðnýjarstaða og vinnubrögðum sveitarstjórnar í málinu. Bjarni starfaði í tæp 35 ár við að breyta raforku í útflutningsvörð en lét af þeim störfum  28.febrúar 2015. Bjarni hefur einnig verið duglegur við að blogga og má finna bloggið hans hér.

Bjarni sagði í bréfi sínu til Smára meðal annars:

Í öðru lagi vekur mér furðu, að sveitarfélagið ykkar skuli rjúka upp til handa og fóta með skipulagsbreytingu áður en Verkefnastjórn um rammaáætlun hefur fjallað um málið. Ég vek athygli á því, að það er jafnmikil ástæða til að fella þetta verkefni undir Rammaáætlun og Búrfellslund.

Í þriðja lagi er ótímabært að breyta aðalskipulagi fyrr en umhverfismat hefur farið fram.

Þá sagði Bjarni einnig:

Varðandi raforkuna:

Að mínu mati þarf að reisa byggingu, söfnunarstöð, fyrir raforkuna frá vindmyllugarðinum, á athafnasvæðinu. Þangað verður væntanlega lagður einn háspennustrengur frá hverri vindmyllu að aflrofa í söfnunarstöðinni. Þar verður væntanlega staðsettur aflspennir, sem tekur við raforkunni af safnteinum á e.t.v. 11 kV og hækkar spennuna upp í 132 kV. Þetta má þess vegna kalla stórhýsi á þessum stað. Frá safnstöðinni verður þá væntanlega lagður 132 kV jarðstrengur að aðveitustöð Glerárskógum. Landsnet verður þá að stækka hana til að taka við 132 kV mötun inn á safnteina stöðvarinnar.

Íbúar Dalabyggðar, sérstaklega í grennd við athafnasvæðið, eiga heimtingu á nákvæmri útlistun á því, hvernig rafmagnsmálunum verður háttað, og í þeim upplýsingum verður að fylgja umsögn Landsnets varðandi móttöku rafmagnsins.

Nú eru kosningar í nánd. Þetta er grundvallarmál fyrir Dalabyggð, sem hlýtur að verða kosið um í vor. Ég ráðlegg ykkur líka að leita til þingmanna ykkar og fá upplýsingar um, hvort og þá hvenær megi vænta lagasetningar um vindorkugarða. Ráðlegast er fyrir Dalabyggð að bíða með allar ákvarðanir, ef slík lagasetning er í bígerð.