Thursday, December 7, 2023

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt að skilgreina stór iðnaðarsvæði á tveimur landbúnaðarjörðum til þess að þar megi byggja vindorkuvirkjanir. Skipulagsbreytingar sem þessar eiga sér engin fordæmi á Íslandi.
Nágrannar eru mjög ósáttir og hafa frá því síðla árs 2017 mótmælt harðlega á fundum með sveitarstjórn ásamt því að hafa sent mörg bréf með mótmælum og athugasemdum við þessa fyrirætlan.
Sveitarstjórn hunsar mótmæli íbúa og hagsmunaaðila og gerir lítið úr mótmælunum í stað þess að verja hagsmuni þeirra eins og þeim ber lagaleg skylda til.

Algjört vanhæfi núverandi sveitarstjórnar kemur m.a. fram í því að þau tjá sig ekki um þetta mál, ef undan er skilið stuttur málflutningur Eyjólfs oddvita og Ragnheiðar á sveitarstjórnarfundinum þar sem þessi skipulagsbreyting var samþykkt. Þar voru engin haldbær rök fyrir framkvæmdinni en rökin sem oddviti notaði m.a. voru að ef ekki kæmu til þessar virkjanir myndum við fara marga áratugi aftur í tímann (það var ekki útskýrt betur hvernig það myndi koma til) og að þetta væri nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi eins og varð hér í desember s.l. (sem orsakaðist reyndar af bilun í dreyfikerfi en var ekki til komið vegna orkuskorts eins og hann lét í veðri vaka). Enginn sveitarstjórnarmaður spyr gagnrýninna spurninga og allir samþykkja samhljóða. Svona virkar persónukjör í pínulitlum samfélögum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „setja þarf lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“. Ríkið skipaði nefnd s.l. haust til þess að vinna þessar leiðbeiningar og lög en þeirri vinnu er ekki lokið.
Dalabyggð er að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórn og ryðjast í gegn með fordæmisgefandi skipulagsbreytingar áður en lagabreytingar og leiðbeiningar til sveitarfélaga eru tilbúnar. Af hverju liggur Dalabyggð svona mikið á? Af hverju skipti oddviti um skoðun varðandi þetta atriði frá því fyrir kosningar 2018?
Ef verkefnin vestur í Dölum verða að veruleika þá er ekkert sem stoppar hvaða einkaaðila sem er í því að kaupa jarðir, fá skipulagi breytt og byggja vindorkuvirkjanir eins og enginn sé morgundagurinn. Ísland verður orðið undirlagt af þessum virkjunum eftir nokkur ár – allt meira og minna í byggð. Og þrýstingur á að selja rafmagn úr landi stóreykst.

Af hverju eru þau þrjú vindorkuverkefni, sem eru komin lengst á landinu, á sama svæðinu (Dalabyggð og Reykhólasveit)? Þetta eru mjög lítil samfélög sem í grunninn eru bændasamfélög, þau hafa ekki sjávarútveg, eru ekki mjög fyrirferðamikil í ferðaþjónustu (þrátt fyrir að mörg metnaðarfull verkefni séu í gangi í þeim geira) og standa höllum fæti að mörgu leyti. Eða eins og einn framkvæmdaraðilinn sagði á fundi í Dalabúð 3. júní s.l. þá er Dalabyggð „byggð sem fer hnignandi“.
Það er því mjög auðvelt að sannfæra þessar litlu sveitarstjórnir um að selja sálu sína (landið sitt) í nafni uppbyggingar og tekjuöflunar.

Sveitarstjórn hefur aldrei sjálf kynnt áform sín og afstöðu fyrir íbúum. Haldnir hafa verið kynningarfundir en þar hafa einungis verið kynningar frá framkvæmdaraðilum, verkfræðistofum auk stuttrar kynningar frá skipulagsfulltrúa á einum fundi. Hagsmunaaðilum hefur því ítrekað verið boðið til funda þar sem framkvæmdaaðilar kynna sín áform. Aldrei hefur sveitarstjórn sjálf kynnt sína stefnu í þessum málum fyrir íbúum, enda virðist sú stefna ekki til. Nokkrir fundir hafa verið boðaðir þar sem framkvæmdaaðilar sitja við háborð og kynna sínar fyrirætlanir en aldrei hefur verið boðað til fundar þar sem sveitarstjórn situr og kynnir sín áform. Þetta kallast að stilla hagsmunaaðilum upp á móti framkvæmdaaðilum á meðan sveitarstjórn fylgist með úr fjarlægð.