Sveitarstjórn Dalabyggðar að stíga stórkostlega áhættumikið skref

1401

H

ér verður fjallað um tvær ákvarðanir sveitarstjórnar Dalabyggðar sem ljóst er að geta haft gífurlegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið. Um er að ræða stærstu breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nokkurn tíman hefur verið gerð og því er nauðsynlegt fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila að kynna sér þessi mál rækilega og mynda sér skoðun.

1. Vilja- og samstarfsyfirlýsing

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur undirritað vilja- og samstarfsyfirlýsingu við fyrirtækið Storm orku um uppbyggingu vindraforkuvirkjunar með framleiðslugetu uppá 130 MW (á við rúmlega hálfa Búrfellsvirkjun), í landi Hróðnýjarstaða. Engar upplýsingar liggja fyrir um innihald þessarar yfirlýsingar og ekki er ljóst hvaða skuldbindingar slík yfirlýsing hefur í för með sér. Aðspurð að því hvaða gögn og sjónarmið hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að samþykkja að undirrita þessa yfirlýsingu, hefur sveitarstjórnarfólk ekki svarað með neinum haldbærum hætti.
Athygli vekur að í fundargerð sveitarstjórnar nr 150 frá 22.ágúst 2017 kemur fram að drög að vilja- og samstarfsyfirlýsingu liggi fyrir en sveitarstjórn ákveði að vísa málinu til umsagnar umhverfis- og skipulagsnefndar. Umhverfis- og skipulagsnefnd tekur málið fyrir þann 14.september en vísar því frá vegna skorts á gögnum (sjá fundargerð nefndarinnar). Sveitarstjórn hunsar það hins vegar og samþykkir (einn sat hjá) að undirrita yfirlýsinguna á fundi nefndarinnar þann 19.september (fundargerð 151) þrátt fyrir að nefndin sem sveitarstjórnin sjálf skipaði og ákvað að fá umsögn hjá, hafi vísað málinu frá. Er þessi nefnd þá bara uppá punt og einungis til formsins vegna?

2. Breyting á aðalskipulagi

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur auglýst lýsingu á breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar þar sem lagt er til að landbúnaðarjörðinni Hróðnýjarstöðum verði breytt í iðnaðarsvæði. Þetta er gert með það fyrir augum að fyrirtækið Storm orka geti hafið þar uppbyggingu vindorkugarðs.

Engin lög eða regluverk eru til á Íslandi um vindraforkuver

Engin lög eða regluverk eru til á Íslandi um vindraforkuver. Vitað er að til staðar er mjög mikill áhugi fjárfesta á að hrinda í gang uppbyggingu á vindraforkuverum og sem dæmi má nefna þá funda fulltrúar frá Gamma reglulega með sveitarstjórn Dalabyggðar vegna fyrirætlana þeirra í héraðinu, en engar upplýsingar eru til skriflega um þessa fundi. Þessir fjárfestar vilja að sjálfsögðu ná að koma sér fyrir og tryggja sér land og hefja framkvæmdir áður en allt regluverkið skellur á. Lög sem síðar verða sett munu ekki ná yfir framkvæmdir sem þegar eru samþykktar.
Þrátt fyrir ofangreint, þá hefur sveitarstjórn sýnilega mikinn áhuga á að vinna með þessum fjárfestum. Svo mikinn að það vekur furðu hversu hratt og hljótt átti að keyra breytingu á aðalskipulagi í gegn. Engin auglýsing er sett í gang og tilviljun ein að íbúar rákust á tilkynningu á vefnum dalir.is um málið um miðjan desember.
Þar er gefinn stuttur andmælafrestur eða til 5.janúar og augljóst að málið átti að fljóta framhjá íbúum. Þegar íbúar svo óskuðu eftir fresti til að skila inn athugasemdum í því skyni að kynna sér málið betur, þá allt í einu er farið að boða til íbúafundar. Það átti sem sagt að setja í gegn þetta fyrsta skref í átt að breytingu á aðalskipulagi og vona að almenningur tæki ekki eftir því.

Það hlýtur að teljast stórkostleg áhætta fyrir sveitarfélagið að ætla að opna á þessar framkvæmdir með engar forsendur

Það hlýtur að teljast stórkostleg áhætta fyrir sveitarfélagið að ætla að opna á þessar framkvæmdir með engar forsendur, enging gögn og engin lög eða regluverk á bak við ákvörðunina. Ekkert er vitað hvaða áhrif þetta kunni að hafa á fasteignaverð á svæðinu og lífsgæði íbúa í næsta nágrenni. Ekkert er vitað hvaða áhrif þetta hafi á ferðaþjónustu, á dýralíf eða á náttúru og landslag. Engar rannsóknir eða gögn hafa verið lögð fram um sjónmengun og hljóðmengun af þess konar virkjunum. Eru Dalamenn virkilega tilbúnir til þess að fórna héraðinu í tilraunastarfsemi og óafturkræfar, stjórnlausar framkvæmdir á náttúru þess með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?