Óumbeðin barátta
Dagsetningin sem markar upphafið af baráttunni um hagsmuni okkar
1.ágúst 2017 - Þetta er dagurinn þegar jörðin Hróðnýjarstaðir var keypt af eigendum Stormorku sem hafa það að aðalmarkmiði að setja upp vindorkuver í sveitarfélaginu af stærðargráðu sem ekki þekkist hér á landi. Þetta er dagsetningin þegar við þurftum allt í einu að fara að eyða dýrmætum tíma okkar og miklum fjármunum í að verja eigur okkar, ævistarf forfeðra okkar, verðmæti eigna okkar, hagsmuni okkar.
Jörðin Hróðnýjarstaðir hefur verið í marga áratugi nýtt sem landbúnaðarjörð og þá aðallega nýtt undir sauðfjárbúskap. Kaupendur jarðarinnar þann 1.8.2017 tóku við búinu í fullum rekstri og þar með talið mörg hundruð kindum sem fylgdu með í kaupunum. En fjárbúskapur nýrra eigenda entist ekki lengi og er fjárlaust á bænum i dag þrátt fyrir digurbarklegt tal nýrra eigenda í opinberum þáttum. Eigendur jarðarinnar Hróðnýjarstaða óskuðu eftir því við Dalabyggð að skipta jörðinni í tvo hluta þann 11.5.2023 sem var samþykkt af sveitarstjórn Dalabyggðar. Í umsókninni um leyfið var þess getið að ástæða skiptingarinnar væri vegna þess að eigendur jarðarinnar áformuðu að setja á fót vindorkuver á stærsta hluta hennar. Dalabyggð samþykkti skiptingu landareignarinnar með þessum skýringum og opinberar þar með vilja sinn í því að greiða götu fyrirtækisins til að setja á stofn vindorkuver í óþökk næstu nágranna.
Viltu slást í hópinn?
Þeir sem vilja slást í hópinn, skrifa á síðuna eða hafa einhverjar fyrirspurnir til hópsins geta sent tölvupóst í netfangið hagsmunir@hagsmunir.is