Vanhæfi sveitarstjórnar – persónukjör í litlum samfélögum
Algjört vanhæfi núverandi sveitarstjórnar kemur m.a. fram í því að þau tjá sig ekki um þetta mál, ef undan er skilið stuttur málflutningur Eyjólfs oddvita og Ragnheiðar á sveitarstjórnarfundinum þar sem þessi skipulagsbreyting var samþykkt. Þar voru engin haldbær rök fyrir framkvæmdinni en rökin sem oddviti notaði m.a. voru að ef ekki kæmu til þessar virkjanir myndum við fara marga áratugi aftur í tímann (það var ekki útskýrt betur hvernig það myndi koma til) og að þetta væri nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi eins og varð hér í desember s.l. (sem orsakaðist reyndar af bilun í dreyfikerfi en var ekki til komið vegna orkuskorts eins og hann lét í veðri vaka). Enginn sveitarstjórnarmaður spyr gagnrýninna spurninga og allir samþykkja samhljóða. Svona virkar persónukjör í pínulitlum samfélögum.